Velkomin á heimasíðu SLAA!

Velkomin á heimasíðu SLAA á Íslandi (Sex and Love Addicts Anonymous), samtök fólks sem leitast við að ná bata frá ástarfíkn og kynlífsfíkn.  Við tölum ekki fyrir hönd SLAA samtakanna í heild sinni en þau eru með alþjóðlega vefsíðu á vefslóðinni http://www.slaafws.org

Við erum sjálfstæð nema í málefnum sem snerta samtökin í heild eða aðrar deildir.  Þessi síða er í umsjón samstarfsnefndar SLAA og hægt er að senda okkur persónulegar fyrirspurnir á netfangið slaaisland [hjá] gmail.com.

 

Fundir

Hér er fundaskrá fyrir SLAA fundi í Reykjavik og á Skype.

 

Neyðar- og upplýsinganúmer SLAA er 698-8702

Ef ekki er svarað í símann þá megið þið endilega reyna aftur.

Fjölmiðlar: Fyrirspurnir frá fjölmiðlum eiga að berast á slaaisland [hjá] gmail.com. Við svörum þeim eins fljótt og við getum.

 

Tilkynningar

Ert þú SLAA félagi í bata?  Deildu reynslunni og sendu inn reynslusögu þína til slaaisland [hjá] gmail.com !

 

Um SLAA

SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous) er félagsskapur karla og kvenna, sem hjálpa hvert öðru til að vera allsgáð.  Samtökin bjóða öllum þeim aðstoð, sem haldnir eru ástar- og/eða kynlífsfíkn og vilja losna úr viðjum hennar.  Þar sem allir meðlimirnir þekkja fíknina af eigin raun, skilja þeir hver annan og sjúkdóminn betur en flestir aðrir. Þeir vita hvernig líðan sjúkdómurinn veldur og hafa lært í SLAA hvernig sigrast má á honum.

SLAA er félagsskapur byggður á grunni tólf reynsluspora og tólf erfðavenja AA-samtakanna.  Eina skilyrðið fyrir þátttöku í SLAA er löngun til að losna undan áþján ástar- og kynlífsfíknar.  Hver deild er rekin með frjálsum framlögum meðlima og er opin öllum sem eru hjálparþurfi.

 

Nafnleynd

Nafnleynd er eitt af því sem batinn grundvallast á.  Þess vegna eru SLAA-fundir venjulega lokaðir þeim, sem ekki eru haldnir sjúkdómnum og vilja bara svala forvitni sinni.  En allir sem óttast að þeir eigi við þetta vandamál að stríða eru velkomnir – –með því skilyrði að þeir virði nafnleynd viðstaddra.  Við höldum trúnað og nefnum engin nöfn SLAA-félaga utan funda.  Nafnleynd er 12. erfðavenja SLAA.

 

Hvað er ástar- og kynlífsfíkn?

Við í SLAA teljum ástar- og kynlífsfíkn vera ólæknandi og stigversnandi sjúkdóm, sem þó megi halda niðri  eins og ýmsum öðrum ólæknandi sjúkdómum.  Þessi sjúkdómur getur birst í margvíslegum myndum, meðal annars sem:

  • Áráttukennd þörf fyrir kynlíf.
  • Algjört ófrelsi gagnvart annarri/öðrum manneskjum(m).
  • Stöðugir dagdraumar eða hugsanir um ástarsambönd eða kynlíf.
  • Einangrandi kynhegðun eins og sjálfsfróun, klám, gægjur og sýniþörf.
  • Óhamið lauslæti, kaup á vændisþjónustu, skyndikynni, símakynlíf, notkun kláms á netinu o.s.frv.
  • Kynferðislegar sjálfsmeiðingar eða misnotkun á öðrum.
  • Kynferðislegt lystarstol.

Tilfinningaleg/kynferðisleg áráttuhegðun er til staðar, þegar ástarsambönd eða kynhegðun skaða í æ meira mæli starf, fjölskyldu og sjálfsvirðingu viðkomandi einstaklings.  Ástar- og kynlífsfíkn tekur á sig sífellt verri myndir, ef hún fær að þróast óhindrað.

Sumir ástar- og kynlífsfíklar álíta sig vera utangarðsmenn, öfugugga eða einfaldlega agalaust fólk, áður en þeir kynnast SLAA.  Aftur á móti telja aðrir, sem haldnir eru þessari fíkn, sig aðeins vera að sækjast eftir því sem þeir eigi heimtingu á eða því sem þeir eigi skilið af öðrum.  Þeir eru sannfærðir um, að hömluleysi sé sjálfsagður réttur þeirra.  Það er skoðun SLAA-samtakanna, að ástar- og kynlífsfíklar séu að glíma við alvarleg veikindi en geti náð ágætum bata með því að fylgja einföldum leiðbeiningum, sem leitt hafa til góðs árangurs hjá fjölmörgum körlum og konum með sama sjúkdóm.

 

Inngangsorð SLAA

SLAA er félagsskapur byggður á grunni tólf reynsluspora og tólf erfðavenja AA-samtakanna. Eina skilyrðið fyrir þátttöku í SLAA er löngun til að hætta að lifa í mynstri ástar- og kynlífsfíknar. SLAA-samtökin eru alfarið rekin með frjálsum framlögum meðlima og eru opin hverjum þeim sem þarfnast þeirra.

Til að sporna við hinum mannskemmandi afleiðingum ástar- og kynlífsfíknar beitum við fimm meginúrræðum:

1. Fráhald. Fúsleiki okkar á hverjum degi til að hætta að ástunda botnhegðun okkar.

2. Trúnaðarmennska / fundir. Geta okkar til að leita eftir stuðningi félaga í SLAA.

3. Reynslusporin. Ástundun okkar á tólf spora bataleiðinni til að ná heilbrigði á kynferðis- og tilfinningasviðinu.

4. Þjónusta. Endurgjöf okkar til SLAA-samfélagsins fyrir allt sem við höfum fengið.

5. Andlegt líferni. Þróun sambands okkar við Mátt æðri okkur sjálfum sem getur leiðbeint og haldið okkur í bata.

Sem félagsskapur hafa SLAA-samtökin enga skoðun á utanaðkomandi málefnum og blanda sér ekki í opinber deilumál. SLAA-samtökin eru ekki tengd neinum öðrum samtökum, hreyfingum eða stefnumálum, hvort sem þau eru trúarleg eða ekki.

Við sameinumst hins vegar um það markmið að takast á við ávanabindandi hegðun í ástar- og kynferðismálum. Við glímum öll við mynstur áráttu- og þráhyggju sem gerir muninn á kynferði okkar og kynhneigð að aukaatriði.

Við þurfum sérstaklega að vernda nafnleynd allra SLAA-félaga. Einnig reynum við að forðast að vekja óþarfa athygli á SLAA í heild sinni í opinberum fjölmiðlum.

 
Þú ert ekki ein/n í baráttunni við ástar- og kynlífsfíkn !